logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Forskóli

Forskóli Listaskóla Mosfellsbæjar er í boði fyrir 6-8 ára börn.  Kennsla fer fram eftir skólatíma barnanna (eftir kl. 13:30)  og innan húsnæðis grunnskólanna. Boðið er upp á forskólakennslu í öllum grunnskólum Mosfellsbæjar.  

Forskólinn skiptist í tvær deildir, Forskóla 1 (6-7 ára börn) og Forskóla 2 (7-8 ára börn) og kennt er í litlum hópum, hámark 8 börn í hóp. Kennt er 1x í viku og er hver kennslustund 50 mínútur.

Markmið forskólanáms er:

  • að vekja áhuga nemenda á fjölbreyttri tónlist og hljóðfærum
  • að veita nemendum grunnþjálfun í grunnatriðum tónlistar og tónfræði
  • að búa nemendur sem best undir hljóðfæranám

Forskólanám er samþætt byrjendanám í tónlistarsköpun og tónfræðagreinum þannig að grunnþjálfun nemenda er alhliða. Nemendur kynnast tónlistinni í gegnum söng, leik, hreyfingu og hrynþjálfun með og án hljóðfæra. Einnig er kenndur grunnur í blokkflautu sem og hin ýmsu skólahljóðfæri notuð til að skapa tónlist og læra að spila saman. Blokkflautan er handhægt hljóðfæri til að vinna með heima og til að læra fyrstu skrefin við að leika lag og skilja uppbyggingu þess. Nemendur læra líka grunnuppbyggingu nótnakerfisins og nótnastrengsins, þau læra að koma fram á tónleikum, fá hljóðfærakynningar og margt og mikið fleira.

Ætlast er til að nemendur æfi sig samviskusamlega heima á blokkflautuna og það er afar mikilvægt að foreldrar hvetji börn sín áfram og sýni náminu áhuga.
Áhersla er lögð á gott samband milli Tónlistarskólans og heimilanna.

Námsefni: Útgefið námsefni fyrir forskóla er af mjög skornum skammti. Því leita forskólakennarar að mestu í eigin smiðju, ásamt blöndu af aðfengnu kennsluefni. Í blokkflautukennslunni er notast við efnið „Tuttugu töffarar“ sem nemendur þurfa að eignast og sem og sína eigin blokkflautu.

Próf og námsmat: Námsmat er á formi símats að teknu  tilliti til hæfniviðmiða.

Kennari í forskóladeild er Þórunn Día Steinþórsdóttir

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira