logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Forskóladeild og ungdeild söngdeildar

24.08.2022 10:48

Nú ættu þeir nemendur sem hefja nám við Listaskólann komandi skólaár að hafa heyrt frá kennurum sínum en oft er mikið púsl í upphafi skólaárs að koma stundaskrám saman svo skóli, frístundir og tónlistarnám falli vel saman. 

Helsta nýungin í námsframboði Listaskólans í vetur er að fimm tónlistarforskólahópar  og tveir hópar í ungdeild söngdeildar verða í boði. Forskóli I og II er kenndur í Varmárskóla og Lágafellsskóla og Forskóli I í Krikaskóla. Kennt er í ungdeild á þriðjudögum kl. 16:30 og 17:30 í húsnæði Listaskólans, Háholti 14. 

Forskólanám Listaskólans er undirbúningsnám fyrir hljóðfæranám við skólann. Börnin fá góða grunnþjálfun í rythmaskynjun, taktskyn er þjálfað upp í leik og samspili, þau læra að spila saman og skapa með allskyns skólahljóðfærum. Einnig er kenndur grunnur í blokkflautuleik, en blokkflautan er handhægt hljóðfæri til að vinna með heima og til að læra fyrstu skrefin við að leika lag og skilja uppbyggingu þess.  Börnin læra líka grunnuppbyggingu nótnakerfisins og nótnastrengsins, þau læra að koma fram á tónleikum, fá hljóðfærakynningar og margt og mikið fleira.

Verið er að móta forskóladeildir Listaskólans sem tveggja ára nám og er stefnan að þau börn sem lokið hafa forskóla II hafi forgang inn í hljóðfæranám síðar meir, óski þau þess. Það hefur sýnt sig að hljóðfæranám verður börnum mun léttara síðar meir ef þau hafa grunn úr forskóladeildum tónlistarskólanna.

Nýr kennari við skólann, Þórunn Día Steindórsdóttir sér um forskólakennsluna en hún er sérmenntuð í tónlistarkennslu yngri barna og hefur langa kennslureynslu.

Einnig hefur verið stofnuð ungdeild innan söngdeildar skólans, en þar fá börn á aldrinum 9-12 grunntilsögn í raddbeitingu, framkomu, þau læra að syngja í röddum, koma fram á tónleikum og margt fleira. Kennari ungdeildar er Íris Erlingsdóttir söngkona.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira